Hvað er Barnabær?

Hér er grein sem var skrifuð fyrir tímarit Heimilis og Skóla:

„Þetta er ekki eins og skólinn, þetta er eins og afmæli!“

… sagði stelpan í 4. bekk brosandi og strauk yfir moldug hnén.  Helga Sif, mamma stráka í 3., 4. og 7. bekk var með hóp barna í garðinum heima hjá sér á Eyrarbakka.  Öll voru þau önnum kafin við að koma jarðarberjaplöntum fyrir í litlum plastglösum.  Plönturnar yrðu seldar á Barnabæ, vorhátíð Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.   Einmitt núna þegar skólaárinu er að ljúka tekur skólinn stakkaskiptum.  Hefðbundinni kennslu lýkur og fáni Barnabæjar er dreginn að húni. Barnabær er samvinnuverkefni skólans, heimilanna og fólksins á svæðinu og unnið þar með nemendum á markvissan og öflugan hátt með stór og flókin hugtök á borð við lýðræði, hagkerfi og samfélagsvitund. Síðustu fjóra skóladaga fyrir sumarfrí er skólanum breytt í fríríki – sjálfstætt þversnið af þjóðfélaginu sem við búum í, þar sem allir nemendur, kennarar, foreldrar og aðrir áhugasamir vinna saman að fjölbreyttum úrlausnarefnum samfélagsins. Barnabær er nú haldinn í þriðja sinn – og er stöðugt að vaxa, eflast og dafna. Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla eru því kærkomin viðurkenning við áframhaldandi þróunvinnu.  Í Barnabæ búa nefninlega þeir grunnþættir menntunar sem ný aðalnámskrá sér fyrir, þótt sérstök áhersla sé lögð á sjálfbærni, lýðræði og sköpun.

 

Starfsmenn pappamassavinnslunnar að störfum.
Starfsmenn pappamassavinnslunnar að störfum.

Kennarar, foreldrar og aðilar úr nærsamfélaginu stinga saman nefjum og skipuleggja vinnustaði þar sem framleiddur er söluvarningur eða þjónusta.  Síðan er gefið út blað sem inniheldur atvinnuauglýsingar á þessa vinnustaði.  Allir nemendur 1. – 9. bekkjar fá blað með sér heim þar sem þessir vinnustaðir auglýsa eftir starfsfólki og sækja síðan um starf.  Fjölbreytni í vinnustöðum er mikil og allur gangur á því hvort þeir eru starfræktir af kennurum, foreldrum eða í samvinnu.  Allt eftir því hver er til í slaginn þetta árið.  Sumir vinnustaðanna eru í beinu sambandi við fyrirtæki á svæðinu, aðrir alveg heimatilbúnir.  Atvinnurekendur eiga það þó allir sammerkt að hafa löngun til að kenna og miðla – að gera þetta saman.  Í ár er t.d. starfrækt kerta- og sultugerð, veitingahús, bifreiðaverkstæði, gróðrarstöð, fjölmiðill, ferðaþjónustufyrirtæki og margt fleira.  Fyrir marga jafnast því Barnabær á við starfskynningu og tengingu við raunveruleikann.  „Á næsta ári ætla ég sko að fara í veitingahúsið“ sagði einn 11 ára.   Í fyrra heyrðist í einni þjónustustúlkunni stynja eftir álagstopp úr kaffihúsinu: „Nú veit ég sko af hverju ég þarf að geta reiknað í huganum.“

 

Bílaverkstæðið
Bílaverkstæðið

Stofurnar iða af krafti og áhuga, aldurs- og getublandaðir hópar vinna samhent að sameiginlegum markmiðum.  Í skiltagerðinni höfðu Eydís og Sigmar kennarar fengið 14 starfsmenn og máluðu skilti af öllum stærðum og gerðum.  Stór hjálpar smáum, pabbi eins situr með og aðstoðar.  Í þrjá daga er unnið hörðum höndum við framleiðslu og skipulag, en á fjórða degi fá börnin útborgað.  Þá hafa allir vinnustaðir komið sér upp sölubás eða þjónustusvæði og haldin er sannkölluð uppskeruhátíð, þar sem börnin skiptast á að kaupa og selja varning sinn og sérþekkingu. Sama dag er Barnabær opnaður almenningi. Foreldrum, ömmum og öfum og öllum öðrum áhugasömum gefst þá kostur á að koma í heimsókn og taka þátt í hátíðahöldunum.

 

Vöruverð og laun reiknast í eigin gjaldmiðli Barnabæjar, besóum. Lokadaginn er líka opnað útibú Seðlabanka Barnabæjar þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að skipta íslenskum krónum í besóa. Engar aflandskrónur hér.  Tekjur af gjaldeyrisviðskiptunum ganga til efniskaupa í verkefnið. Þannig var Barnabær t.d. fjárhagslega sjálfbær frá upphafi.

Barnabær1

Skipulag vordaganna hefst þó nokkru áður en Barnabær er settur. Vinnuhópur foreldra og kennara funda og nemendur í 6. – 9. bekk kjósa sér fulltrúa í sérstakt bæjarráð sem gegnir stöðugt mikilvægara hlutverki í ákvarðanatöku og þróun bæjarbragsins. Seðlabankinn heyrir undir Bæjarráð sem hannar peningana, ákveður gengi og viðmiðunarlaun. Eins hefur ráðið tekið þátt í hönnun á merki bæjarins, lagt til vinnustöðvar og stýrir núna skipulagi uppskerudagsins. Lagður hefur verið grunnur að því að styrkja enn frekar þá aðkomu nemenda í undirbúningi og ákvarðanatökum og efla þannig lýðræðisvitund þeirra og virka þátttöku í samfélagmótuninni. Við viljum hafa ábyrga og sjálfstæða nemendur, ekki satt?

Barnabær4

Það er í raun alveg stórkostlegt að verða vitni að þeirri vinnugleði og atorku sem ríkir í skólanum þessa daga. Sköpunarkrafturinn er mikill og gríðarlega mikið og mikilvægt nám fer fram meðal nemenda. Í kringum sameiginlegt markmið við vöruframleiðslu og/eða þjónustuþróun verður samvinnan leikur einn. Yngri börnin læra af þeim eldri og þau eldri læra að bera ábyrgð og sýna gott fordæmi.  Samvinnan gerir kröfur um þolinmæði og þjálfar félagsfærni og metnaðarstigið er að jafnaði mjög hátt. Skólinn sjálfur gleðst enda endurheimtir hann miðlægt hlutverk sitt í samfélaginu.  Foreldrarnir gleðjast, kynnast stofnuninni að innan, kennurum og nemendum á nýjan og gjörólíkan máta.  Kennarar gleðjast því það er svo auðvelt að vísa í Barnabæ allan veturinn og útskýra flókin hugtök og hugmyndir í þessu módeli.  Og hvernig líður nemendunum því þetta snýst jú allt um þá … þeim líður eins og í afmæli.

2 thoughts on “Hvað er Barnabær?”

  1. Pingback: Heimsókn í Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri | Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

  2. Pingback: Heimsókn í Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri – Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *